Siðareglur ICF (International Coaching Federation)
-
Markþjálfun grundvallast af ögrandi og skapandi samvinnu við viðskiptavini sem hvetur þá til að hámarka persónulega og starfstengda hæfileika sína og tækifæri.
-
Faglegt markþjálfunarsamband: Faglegt markþjálfunarsamband er til staðar þegar viðskiptasamningur eða samningur sem skilgreinir ábyrgð aðila liggur til grundvallar markþjálfuninni.
-
Meðlimir FMÍ, sem stunda markþjálfun á Íslandi, samþykkja að stunda starf sitt í samræmi við grunnhæfniskröfur félagsins og heita að hlíta siðareglum þess.
-
Til að skilgreina hlutverk aðila í markþjálfunarsambandi þarf iðulega að greina milli viðskiptavinar og kostunaraðila. Oftast er viðskiptavinur og kostunaraðili sami einstaklingurinn og er þá einungis talað um viðskiptavin.
-
En til að unnt sé að bera kennsl á hin ólíku hlutverk skilgreinir FMÍ þau á eftirfarandi hátt:
-
Viðskiptavinur: Sá einstaklingur sem undirgengst markþjálfunina.
-
Kostunaraðili: Sá aðili (og fulltrúar hans) sem greiðir fyrir markþjálfunina og/eða sér um að hún standi til boða.Í samningi um markþjálfun skal ætíð kveðið skýrt á um réttindi, hlutverk og skyldur bæði viðskiptavinar og kostunaraðila, séu þeir sitt hvor aðilinn.
-
Formáli: Markþjálfar leitast við að tileinka sér hegðun sem varpar jákvæðu ljósi á markþjálfun sem starfsgrein; bera virðingu fyrir mismunandi aðferðum við markþjálfun; og viðurkenna að þeir eru bundnir af lögum og reglum sem við eiga.
Sem markþjálfi mun ég:
1) Ekki koma neinu vísvitandi á opinbert framfæri sem er ósatt eða villandi um það sem ég hef að bjóða sem markþjálfi, né viðhafa rangar fullyrðingar í rituðum gögnum sem tengjast markþjálfun, mínum eigin viðurkenndu réttindum til starfans eða um FMÍ.
2) Gera nákvæma grein fyrir starfshæfni minni, sérfræðikunnáttu og reynslu sem markþjálfi, sem og viðurkenndum réttindum mínum og vottunum.
3) Virða störf og framlag annarra og ekki eigna mér þau ranglega. Ég skil að brot á þessari reglu geti leitt til lögsóknar af hálfu þriðja aðila.
4) Ætíð leitast við að greina persónuleg málefni sem gætu skert, brotið í bága við eða truflað störf mín sem markþjálfi eða fagleg sambönd á því sviði. Kalli staðreyndir eða kringumstæður fram nauðsyn þess, þá mun ég strax leita faglegrar aðstoðar og gera viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal ákveða hvort rétt sé að rjúfa markþjálfunarsamband/sambönd tímabundið eða að fullu.
5) Ætíð halda í heiðri siðareglur FMÍ er ég gegni hlutverki markþjálfa, leiðbeinanda eða handleiðara í markþjálfun.
6) Kynna niðurstöður rannsókna minna af fagmennsku og heiðarleika og fylgja í hvívetna viðurkenndum reglum í vísindum. Rannsóknir mínar mun ég stunda með samþykki eða heimild þeirra sem málið varðar og á þann hátt að þátttakendur séu sem best verndaðir gegn mögulegu tjóni. Allar rannsóknir skulu vera í samræmi við lög þess lands þar sem þær eru stundaðar.
7) Viðhalda og varðveita gögn er varða starf mitt sem markþjálfi, og farga þeim, þannig að fyllsta trúnaðar og öryggis sé gætt og viðeigandi lögum og samþykktum sé fylgt.
8) Einungis nota upplýsingar um félaga FMÍ (netföng, símanúmer o.þ.h.) á þann hátt og að því marki sem félagið heimilar.
Sem markþjálfi mun ég:
9) Leitast við að forðast raunverulega eða mögulega hagsmunaárekstra og upplýsa þá séu þeir til staðar.Ég mun bjóðast til að draga mig í hlé komi til hagsmunaárekstra.
10) Greina viðskiptavini mínum og kostunaraðila viðkomandi frá hvers kyns þóknun frá þriðja aðila sem ég kann að hljóta eða greiða fyrir vegna tilvísunar til þriðja aðila.
11) Því aðeins semja um þjónustu/vöruskipti eða önnur hlunnindi að það spilli ekki markþjálfunarsambandinu.
12) Ekki vísvitandi ætla mér nokkurn persónulegan, faglegan eða fjárhagslegan hagnað af markþjálfunarsambandinu, nema þá þóknun sem kveðið er á um í samkomulagi eða samningi um markþjálfunina.
Sem markþjálfi mun ég:
13) Ekki gefa viljandi villandi eða röng fyrirheit um hvaða gagn viðskiptavinurinn eða kostunaraðilinn muni hafa af markþjálfun eða af mér sem markþjálfa.
14) Ekki veita verðandi viðskiptavinum eða kostunaraðilum upplýsingar eða ráð sem ég veit eða held að séu villandi eða röng.
15) Gera skýrt samkomulag eða samning við viðskiptavina mína og kostunaraðila. Ég mun virða allt sem um er samið í tengslum við faglegt markþjálfunarsamband.
16) Tryggja, ýmist fyrir eða á fyrsta fundi, að viðskiptavinur minn og kostunaraðili/aðilar skilji eðli markþjálfunar, eðli og mörk trúnaðar, fjárhagslegar ráðstafanir og aðra skilmála markþjálfunarsamningsins.
17) Taka ábyrgð á því að setja skýr og viðeigandi mörk, sem taka tillit til ólíkra þjóðfélagshópa og menningarheima, í samskiptum mínum við viðskiptavini eða kostunaraðila.
18) Ekki eiga í kynferðislegu sambandi við núverandi viðskiptavini eða kostunaraðila.
19) Virða rétt viðskiptavinarins til að rjúfa markþjálfunarferlið hvenær sem er, í samræmi við samningsákvæði. Ég skal vera vakandi fyrir merkjum um að viðskiptavinurinn kunni ekki lengur að hafa hag af markþjálfunarsambandinu.
20) Hvetja viðskiptavin eða kostunaraðila til breytinga ef ég tel að annar markþjálfi eða aðili gæti betur þjónað þörfum hans.
21) Leggja til að viðskiptavinur minn leiti þjónustu annarra fagaðila telji ég það viðeigandi eða nauðsynlegt.
Sem markþjálfi mun ég:
22) Halda í hvívetna trúnað um upplýsingar frá viðskiptavinum og kostunaraðilum, nema þeir, með formlegu samþykki, heimili annað eða lög krefjist þess. Trúnaðarskylda helst þótt samningi sé lokið.
23) Gera skýrt samkomulag um hvernig upplýsingum er markþjálfunina varða, er miðlað milli markþjálfa, viðskiptavinar og kostunaraðila.
24) Skýra viðteknar reglur um trúnað er ég starfa við þjálfun nýliða í markþjálfun.
25) Tryggja að markþjálfar og aðrir, á launum eða ólaunaðir, sem starfa á mínum vegum, geri skýrt samkomulag um að halda í heiðri kafla 4 í öðrum hluta siðareglna FMÍ: Trúnaður og þagmælska, svo og siðareglurnar í heild sinni eftir því sem við á.
-
Sem markþjálfi heiti ég því að virða siðrænar og lagalegar skyldur mínar gagnvart viðskiptavinum mínum, kostunaraðilum, öðrum markþjálfum sem og gagnvart almenningi. Ég heiti því að halda í heiðri siðareglur FMÍ í starfi mínu sem markþjálfi.
-
Rjúfi ég heit mitt eða brjóti siðareglur FMÍ samþykki ég að félagið geti krafið mig til ábyrgðar. Ég samþykki enn fremur að gerist ég brotleg(-ur) við siðareglur félagsins skv. úrskurði siðanefndar, geti ábyrgðarskylda mín gagnvart FMÍ leitt til þess að mér verði vísað úr félaginu. Sé ég jafnframt félagi í Alþjóðasambandi markþjálfa (ICF) hefur siðanefnd heimild til þess að tilkynna úrskurð sinn til ICF.
26) Stjórn félagsins hefur eftirlit með að reglum þessum sé fylgt. Félagsmaður, eða eftir atvikum, aðili utan félags, getur vísað máli til stjórnar telji viðkomandi að markþjálfi hafi sýnt af sér hegðun sem brjóti í bága við siðareglur FMÍ. Stjórn vísar málum til siðanefndar félagsins.
27) Stjórn sker úr um ágreining um skilning á reglum þessum.
28) Félagsmanni er skylt, að boði siðanefndar, að gera viðhlítandi grein fyrir máli sínu vegna meints brots eða ágreinings um skilning á reglum þessum. Ber félagsmanni í því efni að svara og sinna afdráttarlaust fyrirspurnum og kvaðningum siðanefndar.
29) Siðanefnd getur veitt einstökum félagsmönnum áminningu eða beitt strangari viðurlögum eins og brottvísun úr félaginu.
(Íslensk þýðing úr ensku frá ICF ásamt staðfæringum. Félag markþjálfunar á Íslandi www.markthjalfun.is, Leiðtogi ehf., Humus ehf., Karl Benediktsson o.fl.)