612b49c Hvað er Markþjálfun | AM Markþjálfun
top of page

Hvað er Markþjálfun?

Hvernig fer markþjálfun fram?

Markthjalfun1-1200x1797.jpg

„Aðferð sem miðar að því að leysa úr læðingi innbyggða möguleika einstaklings eða hóps. Henni er ætlað að  stytta leiðina að tilteknu markmiði, sem getur verið persónulegur vöxtur, sameiginlegur vöxtur, aukin lífsgæði  eða betri frammistaða og árangur.

 

Markþjálfun getur vakið upp margs konar tilfinningar og ögrað persónulegum  viðhorfum. Stundum getur hún jafnvel leitt til sársaukafullra breytinga.

 

Markþjálfun getur í senn verið krefjandi  og framandi - en þegar upp er staðið uppskera flestir gleði, aukinn mátt og endurnýjaðan áhuga sem árangur  erfiðisins." (Markþjálfun 2013, bls 15).

Skilgreining International Coach Federation (ICF)

Markþjálfun er marksækið, árangursmiðað og kerfisbundið ferli þar sem einn einstaklingur auðveldar öðrum einstaklingi eða hópi að öðlast varanlega breytingu með því að hlúa að sjálfmiðuðu námi og persónulegum vexti þess sem er í þjálfun. Markþjálfun er viðvarandi samband sem miðar að því að marksækjandi taki skref sem gera framtíðarsýn, markmið og óskir hans að veruleika.

Markþjálfi notar ferli spurninga og persónulegra uppgötvana til að efla vitund og ábyrgð marksækjandans. Hann veitir honum jafnframt aðferðir, stuðning og endurgjöf. Markþjálfunarferlið hjálpar marksækjandanum bæði að skilgreina og ná faglegum og persónulegum markmiðum hraðar og auðveldar en annars væri mögulegt.

Heimild: International Coach Federation.

Hæfnisþættir ICF

1.  Siðferðilegar og faglegar kröfur.
2.  Samningur um markþjálfun.
3.  Traust og nálægð við viðskiptavininn.
4.  Markþjálfunarviðvera.
5.  Virk hlustun.
6.  Kröftugar spurningar.
7.  Bein tjáskipti.
8.  Vitundarsköpun.
9.  Mótun aðgerða.
10. Skipulagning og markmiðasetning.
11. Stjórnun framgangs og ábyrgðar.

Í bókinni Markþjálfun sem kom út í maí 2013 er fjallað hvernig markþjálfun fer fram:

„Markþjálfun er samtal eða samræða sem ætlað er að kalla fram vitsmunalegan og andlegan vöxt hjá einstaklingi, eða hjá hópi fólks, þannig að hann nái meiri árangri í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Hún er samstarf þar sem einn einstaklingur vinnur með öðrum einstaklingi, eða hópi, með aðferð markþjálfunar á grundvelli samnings.

 

Markþjálfun er þjónustumiðað samband þar sem kappkostað er að veita marksækjandanum faglega þjónustu á viðskiptalegum forsendum." (Markþjálfun 2013, bls 16-17).

„Markþjálfun er hins vegar oftast viðvarandi þróunarferli sem ýtir undir lærdóm, tileinkun og vöxt. Ferlið felur þá í sér röð samtala og aðgerða sem einstaklingurinn eða hópurinn framkvæmir. Viðfangsefnin geta verið margvísleg og eru ákveðin af marksækjandanum.

 

Nútíð og framtíð eru í brennidepli og í stað þess að líta um öxl og vinna með hindranir eða vandamál er horft til stöðunnar í dag og til framtíðarmöguleika." (Markþjálfun 2013, bls 19-20).

bottom of page